Að hefja rekstur – hvaða form rekstrar hentar
Algengstu rekstrarformin í dag er Einstaklingsrekstur og Einkahlutafélag – ehf.
En skoðum aðeins muninn á þessum félögum.
Einstaklingsrekstur er ódýrasta og einfaldasta rekstrarformið, þá er reksturinn rekinn á kennitölu viðkomandi einstaklings og ber hann ábyrgð á rekstrinum með öllum eigum sínum. Ekkert skráningargjald. Ekkert lágmarks stofn fé. Tekjuskattshlutfall af eigin launum í einkarekstrinum og hagnaði er hið sama og af launatekjum einstaklinga.
Helstu félagaform sem til greina koma eru:
Einkahlutafélag – ehf. Helstu einkenni eru að það er a.m.k. einn stofnandi. Takmörkuð ábyrgð. Er alltaf sjálfstæður skattaðili. Hlutafé verður að vera a.m.k. kr. 500.000.
Hlutafélag – hf. Lágmark að hafa tvo stofnendur. Takmörkuð ábyrgð. Er alltaf sjálfstæður skattaðili. Hlutafé verður að vera a.m.k. kr. 4.000.000.
Samlagshlutafélag – slhf. Lágmark að hafa tvo stofnendur. A.m.k. einn aðili með takmarkaða ábyrgð og a.m.k. einn með ótakmarkaða ábyrgð. Getur verið annað hvort sjálfstæður eða ósjálfstæður skattaðili. Hlutafé verður að vera a.m.k. kr. 4.000.000. Ef um ósjálfstæðan skattaðila (félag) er að ræða skal skipta tekjum og eignum félagsins á eigendur þess í samræmi við eignahlutföll til skattlagningar hjá þeim.
Sameignarfélag – sf. Lágmark að hafa tvo stofnendur. Allir eigendur með ótakmarkaða ábyrgð – einn fyrir alla og allir fyrir einn. Getur verið annað hvort sjálfstæður eða ósjálfstæður skattaðili. Ekki er gerð krafa um stofnfé. Hjón ein sér eða með ófjárráða börnum sínum geta þó ekki myndað sameignarfélag sem er sjálfstæður skattaðili. Ef um ósjálfstæðan skattaðila (félag) er að ræða skal skipta tekjum og eignum félagsins á eigendur þess í samræmi við eignahlutföll til skattlagningar hjá þeim.
Samlagsfélag – slf. Lágmark að hafa tvo stofnendur. A.m.k. einn aðili með takmarkaða ábyrgð og a.m.k. einn með ótakmarkaða ábyrgð. Getur verið annað hvort sjálfstæður eða ósjálfstæður skattaðili. Ekki er gerð krafa um stofnfé. Hjón ein sér eða með ófjárráða börnum sínum geta þó ekki myndað samlagsfélag sem er sjálfstæður skattaðili. Ef um ósjálfstæðan skattaðila (félag) er að ræða skal skipta tekjum og eignum félagsins á eigendur þess í samræmi við eignahlutföll til skattlagningar hjá þeim.
Þarf að skrá atvinnureksturinn í upphafi rekstrar?
Hjá skattyfirvöldum þurfa einstaklingar í atvinnurekstri og félög að skrá sig/starfsemina á launagreiðendaskrá eigi síðar en 8 dögum áður en starfsemi hefst. Þó þarf einstaklingur ekki að skrá sig á launagreiðendaskrá ef reiknað endurgjald hans fer ekki yfir 450.000 kr. miðað við heilt ár. Ef um virðisaukaskattsskylda starfsemi er að ræða þarf einnig að skrá starfsemina á virðisaukaskattsskrá eigi síðar en 8 dögum áður en starfsemi hefst.
Sé velta í starfseminni lægri en tiltekin fjárhæðamörk (2.000.000 kr. án VSK þegar þetta er ritað – 2023) á sérhverju tólf mánaða tímabili þurfa ekki að innheimta virðisaukaskatt og þar að leiðandi ekki að skrá sig og sækja um virðisaukaskattsnúmer. En nái veltan hins vegar, eða viðkomandi rekstraraðili sér að velta fari yfir og nái 2.000.001,- kr þá þarf að sækja um VSK númer.